8.5.2012 | 11:46
Kynning á öllum skráðum liðum og spá hver hlýtur verðlaunin
Það stefnir í góða þátttöku og æsispennandi keppni í Ráðhúsinu kl: 16 á morgun miðvikudag.
Enn er hægt að skrá lið í keppnina. Fyrirtæki geta einnig nýtt þann möguleika að fá svokallað lánslið, en þá er sett saman lið sem að teflir í nafni fyrirtækisins.
Barist er um óvenju vegleg verðlaun, sennilega næst bestu verðlaun í skákmóti hér á landi á eftir Reykjavíkurskákmótinu, m.a. flug báðar leiðir með öllum sköttum og gjöldum með Iceland Express, 100 þús. kr. GSM síma og út að borða á fínustu veitingastöðum bæjarins og ótal margt fleira. Verðlaunin spanna mikla breidd, en m.a. eru veitt verðlaun fyrir bestu frammistöðu liða miðað við styrkleika, bestu frammistöðu einstaklings, besta liðstjórann, óvæntustu úrslitin o.fl.
Hér á eftir verður farið stuttlega yfir liðin sem að þegar hafa tilkynnt þátttöku.
1. Eimskip Lið Eimskipa er skipað tveimur starfsmönnum og svo starfsmanni eða einum lánsmanni sem að tengdur er fyrirtækinu. Jóhann Helgi Sigurðsson (1.993) forstöðumaður framleiðslustýringar leiðir lið Eimskipa. Ingvar Örn Birgisson (1.767) bílstjóri teflir á öðru borði. Ekki hefur fengist endanlega staðfest hver teflir á þriðja borði, en fréttir herma að Eimskip sé ekki með hugann við að komast sem næst stigaþakinu, heldur hafa starfsmenn og fólk sem að tengt er fyrirtækinu í liðinu.
2. Síminn Lið Símans skipa Kristján Halldórsson deildarstjóri (1.795), Vignir Bjarnason fjarskiptaverkfræðingur (1.823), Brynjólfur Bragason (stigalaus) deildarstjóri Internetþjónustu og Sigþór Björgvinsson (stigalaus). Sveit Símans er eingöngu skipuð starfsmönnum. Hún er samtals með 4.618 stig og því nokkuð frá 5.500 stiga þakinu. Að sögn Símamanna er ætlunin að hafa gaman af taflmennsku í mótinu.
3. Hafgæði sf. Landsliðsmaðurinn Hjörvar Stein Grétarsson (2.417) leiðir lið Hafgæða sf. Hjörvar er 60 stigum hærri á alþjóðlega stigalistanum en þeim íslenska. Patrekur Maron Magnússon (1.950) félagi Hjörvars úr Versló teflir á öðru borði. Ólafur Þór Ólafsson (stigalaus) teflir á þriðja borði. Ólafur er starfsmaður Hafgæða sf., en Hjörvar og Patrekur eru svokallaðir lánsmenn. Ólafur hefur teflt á netinu, en er að tefla í sínu fyrsta opinbera skákmóti. Það verður spennandi að fylgjast með þessari sveit.
4. Morgunblaðið teflir eingöngu fram starfsmönnum. Sveitina skipta þeir Jóni Árna Jónsson (2.051), Baldur A. Kristinsson (2.047), Pétur Blöndal (1.270) og Ómar Óskarsson (stigalaus). Sveitin er samtals með 5368 stig og því nær stigaþakinu en sveit Símans.
Jón Árni er íslenskugúru að norðan og teflir með Mátum.
Baldur var mjög virkur skákmaður áður fyrr, en hefur látið sér nægja að tefla á Íslandsmóti Skákfélaga í seinni tið. Baldur hefur reynst skákmönnum betur en margur veit, en hann sér um tæknimálin á blog.is vefjunum, þar með talið fréttavef Skáksambandsins, sem að er á Moggablogginu.
Pétur þekkja skákáhugamenn vel, enda er hann duglegur að skrifa um skák. Hann hefur aðeins einu sinni tekið þátt í opinberu skákmóti.
Ómar er stigalaus og er eftir því sem næst verður komist að tefla á sínu fyrsta skákmóti, en Ómar hefur tekið ófáar ljósmyndir af skákmeisturum.
5. Íslandsbanki Íslandsbanki teflir eingöngu fram starfsmönnum. Lið Íslandsbanka skipa þeir Guðmundur Magnús Daðason (1.974), en hann er jafnframt liðsstjóri, Gunnar Gunnarsson (1.780), Björn Hákonarson (stigalaus) og Jón Sigurður Þórðarson (stigalaus). Guðmundur er ákaflega slyngur liðsstjóri, en hann hefur stýrt sveit Bolvíkinga til sigurs á Íslandsmóti Skákfélaga þrjú síðustu árin.
6. Hugsmiðjan Sveit Hugsmiðjunnar er eingöngu skipuð starfsmönnum. Enginn þeirra er í hópi svokallaðra stigamanna. Lið Hugsmiðjunnar skipa þeir Margeir Steinar Ingólfsson ráðgjafi, en hann er jafnframt liðsstjóri, Steinn Arnar Jónsson þróunarstjóri hugbúnaðargerðar og Jón Frímannsson. Það er ánægjulegt að sjá sveit Hugsmiðjunnar í mótinu.
7. Verkís Verkís er með sveit.
8. Rimaskóli Rimaskóli er með sveit í mótinu.
9. RARIK RARIK er með sveit í mótinu. Ekki er endanlega komið á hreint hvernig hún er skipuð.
10. SS SS er einnig með sveit, sem að enn er verið að vinna í að skipa.
11. Fjölnir Fjölnir verður með lið í mótinu skipað ungum skákmönnum.
12. Íslandsbanki er að safna saman í lið nr. 2 sem að yrði eingöngu skipað stigalausum, ekki 100% staðfest.
13. Reykjavíkurborg verið að vinna að því að senda inn lið, en ekki enn 100% staðfest.
14. Þitt lið?
Hver vinnur verðlaunin, sjá http://www.firmakeppnin.blog.is/blog/firmakeppnin/entry/1237817/ ?
Stigaþakið gerir keppnina um aðalverðlaun mótsins óvenju spennandi. Erfitt er að segja fyrir um hvaða tvö lið fara heim með flug til Evrópu fram og til baka með öllum gjöldum inniföldum með Iceland Express.
Einstaklingsverðlaun, þessi verðlaun eru mjög vegleg og setja mótið ekki langt frá Landsbankahraðskákmótinu. Segja má að það sé mót í mótinu.
Hér lítur út fyrir að landsliðs- og Hafgæða maðurinn Hjörvar Steinn Grétarsson muni nánast geta labbað strax út með 100 þús. kr. GSM síma. Önnur verðlaun í þessum flokki eru einnig mjög vegleg og ómöglegt að segja hver hlýtur þau. Þá eru hin þrjú verðlaunin einnig vegleg og mjög spennandi að sjá hverjir hljóta þau. Héðinn er innan raða Fjölnis. Það ber að taka fram að ef að hann verður með í mótinu, þá mun hann og sveitin sem að hann teflir með ekki geta unnið nein verðlaun.
Sama gildir um óvæntustu úrslit mótsins.
Öll liðin eiga möguleika á að vinna til verðlauna fyrir liði sem að kemur mest á óvart m.v. fyrirfram styrkleika. Stigalaus lið hljóta að hafa sterka stöðu hér.
Snjallasti liðsstjórinn, hér hlýtur Íslandsbankamaðurinn Guðmundur Daðason að vera heitur kandidat, enda hokinn reynslu eftir að hafa stýrt liði Bolvíkinga til sigurs þrjú ár í röð á Íslandsmóti Skákfélaga. Það getur þó allt gerst.
Flottasti liðsbúningurinn, hér láta mótshaldarar koma sér á óvart.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.